Áherslur

Skólinn

Lestur er lífsins leikur

Byrjendalæsi

Við lestrarkennslu á yngsta stigi í Hvaleyrarskóla er notuð kennsluaðferð sem kallast byrjendalæsi. Unnið er jafnt með merkingu máls og tæknilega þætti lestrarnámsins. Vinna með tal, hlustun, lestur og ritun er felld saman í eina heild og tengjast sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðavitund, réttritun, orðaforði, uppbygging setninga, málfræði og skrift inn í ferlið. 

Lagt er upp úr því að vinna með gæðatexta með ríkulegum orðaforða og boðskap sem gefur möguleika á innihaldsríkum samræðum. Tenging við reynsluheim nemenda er mikilvæg til að efla skilning þeirra á textanum, auðga orðaforða þeirra og orðskilning. Áhersla er lögð á fjölbreytni og sveigjanleika í námsaðstæðum barnanna. 

Kennarar fylgjast grannt með, meta framvindu námsins og grípa inn í með auknum stuðningi hvort sem um er að ræða einstakling, minni hópa eða nemendahópinn í heild. 

Orð af orði

Orð af orði er kennslufræði með þann tilgang að efla læsi og námsárangur nemenda. Markmiðið er að efla orðaforða, lesskilning og námsárangur. Verkefnið er unnið á mið- og elsta stigi og tekur það við af Byrjendalæsinu á því yngsta.

Lögð er áhersla á að:
  • auðga málumhverfið og efla vitund nemenda um orð og gildi orðaforða fyrir lestur, skilning og nám.
  • auka við lestur, ritun, samræður og hlustun. Það er gert með lestri fyrir nemendur, lestri nemenda sjálfra, samlestri og samvinnu þar sem alltaf er verið að velta fyrir sér orðum og hugmyndum.
  • koma á fjölbreytilegri orða- og hugtakavinnu.
  • kenna nemendum aðferðir til að greina merkingu orða og beina sjónum markvisst að skilningi.
  • kenna nemendum að kortleggja aðalatriði og endurbirta á fjölbreyttan og heildrænan hátt.
Lykilaðferðir
  • Orð dagsins.
  • Orðhlutavinna.
  • Hugtakagreining.
  • Ritun út frá orðasafni.
  • KVL-aðferðin (Kann, Vil vita, hef Lært).
  • Krossglíma.
  • Gerð hugtakakorta.
  • Gagnvirkur lestur.
  • Yndislestur.

Heilsueflandi grunnskóli

Hvaleyrarskóli er formlega þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi grunnskóli á vegum Lýðheilsustöðvar. Hvaleyrarskóli var fyrsti grunnskólinn í Hafnarfirði sem tekur þátt í þessu verkefni.

Eitt helsta markmið heilsueflandi grunnskóla er að vinna markvisst að því að efla og stuðla að velferð og góðri heilsu nemenda, starfsfólks og samfélagsins. Í heilsueflandi grunnskóla er sérstök áhersla lögð á eftirfarandi átta þætti skólastarfsins:

  1. Nemendur.
  2. Mataræði og tannheilsa
  3. Heimili.
  4. Geðrækt.
  5. Nærsamfélag
  6. Hreyfing og öryggi
  7. Lífsstíll.
  8. Starfsfólk.

Hvaleyrarskóli byggir ofan á grunninn sem þegar er til staðar í skólanum en markmið, stefna og starf skólans fellur að mörgu leyti vel að markmiðum og áherslum heilsueflandi skóla.

 

 

Skólabragur

Í Hvaleyrarskóla er lögð áhersla á að þjálfa félagsfærni og að fyrirbyggja einelti. SMT- skólafærni og Olweusaráætlunin eru lögð til grundvallar jákvæðum skólabrag og góðum bekkjaranda.

SMT

SMT- skólafærni stendur fyrir School Management Training og byggir á PMT- foreldrafærni (Parent Management Training). Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar í samvinnu við félagsþjónustuna og heilsugæsluna býður upp á námskeið fyrir foreldra til þess að vinna eftir PMT. PMT-foreldrafærni byggir á kenningu Dr. Gerald Pattersons og er oft kennd við Oregon-fylki í Bandaríkjunum og kallast þar Positive Behavior support (PBS).

Skýrar og sýnilegar reglur

SMT-skólafærni þjálfar félagsfærni og æskilegri hegðun er veitt aukin athygli með markvissu hrósi og umbunum. Skýr fyrirmæli eru höfð að leiðarljósi og rækt lögð við góð samskipti. Þannig skapast betra námsumhverfi fyrir bæði nemendur og kennara. Reglur skólans eru skýrar og sýnilegar þannig að bæði nemendur og kennarar vita til hvers er ætlast.

Skólahúsnæðinu er skipt upp í svæði og gilda ákveðnar reglur á hverju svæði fyrir sig. Reglur eru kenndar eftir ákveðinni áætlun og gerðar sýnilegar á þeim svæðum sem þær gilda um. Ein regla er tekin fyrir í hverri viku og fær starfsfólk senda áminningu um reglu næstu viku í vikupistli á föstudögum. Allir eru því að vinna með sama svæðið samtímis.  

Hvalamiðar

Nemendum er umbunað fyrir ,,rétta” hegðun með svokölluðum hvalamiðum en þá má nálgast hjá ritara. Sérstök áherslu er á að nemendur fái hvalamiða fyrir að fara eftir þeirri reglu sem verið er að vinna með þá vikuna. Hvalamiðarnir gefa nemendum stig sem þeir safna saman þar til stigafjöldi hefur náð fjórföldum fjölda nemenda í bekknum. Þá er haldin svokölluð hvalaveisla og nemendum er umbunað á einhvern hátt.

Mögulegt er að veita nemendum einstaklingshval sem gefur eitt stig en einnig er mögulegt að umbuna heilum bekk með bekkjarhval sem gefur fjögur stig. Einstaklingshvali fara nemendur með heim og sýna foreldrum. Næsta dag koma þeir með hann aftur í skólann og afhenda umsjónarkennara sem sér um að hengja hann upp á ákveðinn stað í skólastofunni. Hvalaveislur eru alfarið í höndum umsjónarkennara. Ekki er gert ráð fyrir að þær séu kostnaðarsamar fyrir nemendur.

Árlega fer fram svokallaður ,,ofurhvalaleikur“ sem stendur yfir í 2 vikur í senn eða 10 skóladaga. Nöfn tveggja starfsmanna við skólann eru dregin á hverjum degi og þeim afhentir 10 sérstakir hvalamiðar sem þeir eiga að koma út þann daginn. Hengt er upp veggspjald með hundrað reitum í upphafi leiksins og fyrir fram er ákveðið hvaða 10 númer vinna. Þeir nemendur sem eru svo heppnir að fá ofurhval draga númer hjá ritara sem sér um að hengja þeirra miða á réttan stað og skrá niður nafn og númer nemenda í sérstaka bók. Einnig sér ritari um að senda tilkynningu heim til nemenda og láta foreldra vita að barnið þeirra hafi fengið ofurhval fyrir góða hegðun í skólanum. Í lok leiksins tilkynnir skólastjóri hvaða númeraröð ber sigur úr býtum og heldur sérstaka hvalaveislu fyrir þann hóp nemenda. 

Olweus

Hvaleyrarskóli hefur slegist í hóp þeirra fjölmörgu skóla sem hafa innleitt Olweusaráætlunina til að draga úr einelti. Markmiðið er að skapa jákvæðan skólabrag og bekkjaranda til þess að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun. Áætlunin gerir ráð fyrir að allir starfsmenn skólans þekki einelti og hvernig skuli bregðast við því. Virkt eftirlit er í frímínútum, íþróttahúsum, ferðalögum, matsal, kennslustofum og hvar sem nemendur koma saman.

Nemendur fá fræðslu um einelti, birtingarform þess og afleiðingar fyrir bæði gerendur og þolendur. Allir bekkir skólans vinna bekkjarreglur á haustin og bekkjarfundir eru haldnir reglulega þar sem meðal annars er tekið á samskiptum, eineltismálum og rætt um skólabrag. Viðamikil könnun um einelti er lögð árlega fyrir nemendur í 5.–10. bekk.

Þekking foreldra á verkefninu og tilgangi þess er mjög mikilvæg. Allir foreldrar eru hvattir til að kynna sér foreldrabækling Olweusaráætlunarinnar og starfa með skólanum við að uppræta einelti.

Meira um Olweusáætlunina má lesa hér.