Hagnýtar upplýsingar

Foreldrar

Nemendur 1.–7. bekkja fara út í öllum frímínútum, en nemendur elstu deildar mega vera innandyra.

Ef nemendur yngri deilda þurfa af einhverjum ástæðum að vera inni í frímínútum þurfa þeir að hafa með sér beiðni að heiman til umsjónarkennara, þar sem ástæða óskar um inniveru er tilgreind. Miðað er við að nemandi sé ekki inni í meira en einn dag eftir veikindi.

Gæslu í frímínútum sinna skólaliðar og kennarar ýmist úti eða inni. Ef veður hamlar útivist eru nemendur innandyra undir umsjón kennara og skólaliða.

Yngsta deild

Í yngstu deild er hefð fyrir nokkrum skemmtunum á skólaárinu.

Jólaskemmtun

Síðasta dag fyrir jólafrí flytur 5. bekkur helgileik í sal skólans. Sama dag er dansað í kringum jólatréð og hver bekkur heldur stofujól með umsjónarkennara í heimastofu. Þá opna nemendur jólakort frá bekkjarfélögum og vinum, stundum skiptast nemendur á litlum gjöfum, þeir hlýða á jólasögu og gæða sér á smákökum að heiman.

100 daga hátíð

Nemendur telja daga í skóla og þegar 100 dagar eru liðnir af skólaárinu er haldin hátíð. Meðan á talningu stendur nýta kennarar sér tækifærið og fjalla um tugi, einingar og hundruð með ýmsum hætti.

Vorhátíð

Grillveisla er haldin á skólalóðinni og farið í ýmsa leiki. Sem dæmi má nefna ýmsa boltaleiki, pokahlaup, dósakast, snú snú og teygjutvist og boðið er upp á andlitsmálun.

Vorferð

Á vordögum er hefð fyrir því að nemendur fari í vorferðir með umsjónarkennurum sínum.

Bjartir dagar

Hátíðin er haldin í Hafnarfirði í byrjun hvers sumars. Þá streyma 3. bekkingar allra grunnskóla í Hafnarfirði niður á Thorsplan merktir sínum skóla og taka þátt í skemmtidagskrá.

Miðdeild

Bekkjarkvöld

Miðað er við að bekkjarkvöld séu haldin tvisvar yfir skólaárið, einu sinni á hvorri önn. Á fyrra bekkjarkvöldinu keppir bekkurinn innbyrðis um atriði fyrir hæfileikakeppni miðdeildar, sem er einn af aðalviðburðum skólaársins. Umsjónarkennari hvers bekkjar kynnir keppnina í sínum bekk, hvetur nemendur til þátttöku ogskipar dómnefnd úr röðum nemenda í unglingadeild. Vinningsatriðið keppir fyrir hönd bekkjarins á hæfileikakeppni miðdeildar. Hæfileikakeppnin fer fram á jólaskemmtun miðdeildar og sér deildarstjóri um skipulagningu.

Jólaskemmtun

Jólaskemmtun miðdeildar er haldin seinni hluta dags stuttu fyrir jólafrí og þá fer fram hæfileikakeppni miðdeildar. Veitt eru vegleg verðlaun fyrir 1. til 3. sæti. Dómnefnd skipa gjarnan fulltrúar úr nemendaráði skólans, fulltrúi skólastjórnenda og fulltrúi frá félagsmiðstöðinni Verinu.

Helgileikur

5. bekkir æfa og sýna helgileik í sal skólans á síðasta degi fyrir jólafrí fyrir yngri- og miðdeild. Kallað er eftir framboðum úr báðum bekkjardeildum og valið er í hlutverk. Auk þess hefur skólakórinn sungið. Æfingar fara fram að hluta til á skólatíma en að hluta utan skóla.

Eftir helgileikinn eru haldin stofujól með umsjónarkennara í heimastofu þar sem skipst er á jólakortum, hlýtt á jólasögu og borðað góðgæti að heiman. Oft hafa nemendur komið með litla gjöf að heiman í vikunni fyrir stofujólin sem nemendur skiptast á. 

Reykir

Nemendur 7. bekkja hafa farið í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði einhvern tímann á skólaárinu. Deildarstjóri sér um að setja sig í samband við staðarhaldara að Reykjum og finna heppilega tímasetningu í samstarfi við umsjónarkennara 7. bekkja.

Árshátíð miðdeildar

Árshátíðin er vegleg og mikið er lagt í dagskrána, aðkeypt skemmtiatriði og DJ eða lifandi tónlist. Deildarstjóri hefur umsjón með skipulagningu. Nemendur geta keypt sér pizzu og verslað í sjoppu félagsmiðstöðvarinnar og endað er á að dansa fram eftir kvöldi. Hefð er fyrir því að 6. bekkir sjái um skreytingar fyrir hátíðina og 5. bekkir um tiltekt. Umsjónarkennarar eru ábyrgir fyrir nemendum sínum.

Vorferð

Á vordögum fara nemendur miðdeildar í dagsferð með umsjónarkennurum sínum. Hver árgangur fer saman.

Elsta deild

Fiesta

Aðalhátíð nemenda í elstu deild og er haldin sameiginlega af skólanum og félagsmiðstöðinni Verinu. Hátíðin hefst á mexíkóskum mat og á eftir er haldið sameiginlegt ball með Lækjarskóla. Oft leika þekktar hljómsveitir fyrir dansi. Ballið er opið nemendum úr öðrum skólum að takmörkuðu leyti. 

Stofujól og jólaball

Stofujól í elstu deild eru haldin næst síðasta dag fyrir jólafrí. Um kvöldið er síðan haldið jólaball. Deildarstjóri og kennarar hafa samráð um skipulag.

Grunnskólahátíð

Sameiginlegt ball allra skóla í Hafnarfirði sem eru með elstu deild og félagsmiðstöðva bæjarins.

Árshátíð

Á vorin er haldin árshátíð í samstarfi við félagsmiðstöðina Verið og 10. bekkingar sjá um skemmtiatriði.

Ferðir
 • 8. bekkir fara í dagsferð að vori.
 • 9. bekkir fara í 2 daga ferð að hausti.
 • 10. bekkir fara í 3 daga útskriftarferð að vori.

Heimanám

Heimanám byggir á samstarfi milli heimila og skóla. Það er mikilvægt að foreldrar sýni námi barna sinna áhuga og aðstoði þau við heimanámið sitt. Markmiðið með heimanámi er að nemendur temji sér sjálfsaga, læri að vinna upp á eigin spýtur og séu vel undirbúnir undir kennslustundir sem framundan eru. Einnig er þetta kjörið tækifæri fyrir foreldra til að fylgjast með námi barna sinna.

1. og 2. bekkur

 • Aðaláhersla er á lestrarþjálfun.
 • Nemendur æfa sig í því að draga rétt til stafs.
 • Inn á milli fara auðveld verkefni heim tengd ritun eða stærðfræði.

3. og 4. bekkur

 • Heimalestur.
 • Nemendur fá heimanám einu sinni í viku og skila viku síðar. Heimaverkefni endurspegla viðfangsefnin sem unnið er að í skólanum og eru hugsuð til frekari þjálfunar á því sem nemendur hafa áður lært.
 • Í samráði við foreldra er mögulegt að senda óunnin skólaverkefni heim með nemendum sem heimavinnu.

Mið- og eldri deild

 • Heimalestur.
 • Námi nemenda er skipt niður í áætlanir fyrir eina viku í senn. Áætlunin er aðgengileg nemendum og foreldrum á Mentor.
 • Með markvissri og góðri vinnu í kennslustundum ættu nemendur að geta unnið stærstan hluta námsins í skólanum.
 • Kennarar geta lagt fyrir önnur verkefni sem nemendur þurfa að hluta til eða öllu leyti að vinna heima. Slík verkefni eiga að vera send heim með góðum fyrirvara.

 

Heimalestur

Yngri og miðdeild

 • Nemendur eiga að lesa upphátt heima 5 sinnum í viku, að lágmarki í 15 mínútur í hvert skipti. 
 • Einhver á að kvitta fyrir lesturinn í heimalestrarbók.  
 • Í hverri viku er merkt í Mentor (eða í námslotu) við hvern nemanda hvort nemandinn hafi lokið við heimalestur eða ekki. 
 • Foreldrar geta séð hvernig heimalesturinn gengur fyrir sig í Mentor.
Ef heimalestri er ekki sinnt
 • Ef heimalestri er ekki sinnt í 2 skipti á tveimur vikum sendir umsjónarkennari tölvupóst heim og gengur eftir viðbrögðum við honum.
 •  Ef heimalestri er ekki sinnt í 3 skipti eða fleiri á tveggja vikna tímabili hringir umsjónarkennari heim til foreldra. Umsjónarkennari lætur deildarstjóra vita af stöðunni.  
 • Ef heimalestri er ekki sinnt þrátt fyrir ítrekuð tilmæli til foreldra fer málið til stjórnenda skólans. Deildarstjóri boðar foreldra til fundar með umsjónarkennara.
 • Ef heimalestri er enn ekki sinnt og engar skýringar fást er máli vísað til lausnateymis Hvaleyrarskóla og næst til nemendaverndarráðs Hvaleyrarskóla.

 

Elsta deild

 • Nemendur lesa heima bækur að eigin vali. 
 • Nemendur skrá lestur og láta kvitta fyrir heima. 
 • Lesa á heima í að minnsta kosti 20 mínútur á dag.
 • Nemendur skrifa 100 orða færslu vikulega um bókina sem verið er að lesa. 
 • Þeir nemendur sem óska þess geta skrifað rafrænar færslur og skilað inn á Google Classroom. 
 • Skil á lestrardagbókinni er einu sinni í viku og skráð í Mentor.
 • Ef heimalestri er ekki sinnt og engar skýringar fást er máli vísað til lausnateymis Hvaleyrarskóla og næst til nemendaverndarráðs Hvaleyrarskóla.

 

Gott að hafa í huga við lestur

Foreldrar er mikilvægar fyrirmyndir barna sinna og þau börn sem alast upp við jákvætt lestrarhvetjandi umhverfi, sjá foreldra sína lesa og upplifa að bækur og ritmál sé hluti af daglegu umhverfi, læra að njóta lestrar.

 • Sýnið lestri barnsins áhuga og hrósið þegar við á.
 • Gerið lestrarstundina að jákvæðri upplifun, leiðréttið af nærgætni.
 • Takið hlé ef barnið þreytist og gætið þess að það sé ekki svangt.
 • Gott er að skiptast á að lesa ef textinn reynist erfiður.
 • Leggið áherslu á að barnið læri bókstafina og hljóð þeirra.
 • Notist líka við hljóðbækur. Til dæmis í bílnum, á kvöldin þegar líður að háttatíma og við fleiri tækifæri.
 • Fáið börn til að lesa í fríum og takið bækur með í ferðalög.

 

Lesskilningur

Gott er að ræða saman um textann til að ganga úr skugga um að barnið þjálfi skilning á lesefninu. Til dæmis:

 • Spyrja út í söguþráðinn og persónur.
 • Hver er boðskapur sögunnar?
 • Gæti sagan gerst í alvörunni?
 • Hvað myndir þú gera?
 • Hvernig leið þér eftir lesturinn?
 • Lærðrðu eitthvað nýtt?
 • Fannst þér erfitt að skilja einhver orð?
 • Hvað fannst þér mest spennandi eða skemmtilegast?
 • Hvað gæti gerst næst?

 

Tengt efni

Ef nemendur eru með ofnæmi fyrir einhverjum matvælum er mikilvægt að upplýsa skólann og þau sem sjá um matinn um það.

Morgunmatur

Öllum grunnskólabörnum í Hafnarfirði er boðið upp á hafragraut 20 mínútum fyrir fyrstu kennslustund. Grauturinn er borinn fram í matsalnum frá 08:00–08:20.

Hádegismatur

Hægt er að skrá barn í heitan mat í hádeginu sem Skólamatur sér um. Matseðill fyrir vikuna birtist á vef skólans og Skólamatar.

Í byrjun skólaárs þarf að skrá barn í mataráskrift á vefsíðu Skólamatar. Það er hægt að velja fasta áskrift 5 daga vikunnar, sérstaka daga eða kaupa stakar máltíðir. Áskriftin framlengist sjálfkrafa um 1 mánuð, nema ef áskrift er sagt upp eða breytt.

Lögð er áhersla á næringu barna, umhverfissjónarmið og matarsóun. Allir matseðlar eru næringarútreiknaðir og farið eftir ráðleggingum embættis Landlæknis.

Nemendur sem kjósa að vera ekki í mataráskrift geta komið með nesti að heiman og borðað í matsalnum þar sem er aðgangur að örbylgjuofni og samlokugrillum.

Hressing

Á morgnana er hressing og hægt er að kaupa áskrift af ávöxtum- og grænmeti hjá Skólamat.

Systkinaafsláttur af mataráskrift

Ef þú átt 2 eða fleiri börn í grunnskóla færðu 25% afslátt af mataráskrift fyrir annað systkinið og 100% afslátt frá og með því þriðja. Systkini verða að vera með sama lögheimili og fjölskyldunúmer í Þjóðskrá.

Ef þú uppfyllir þessar reglur þarf ekki að sækja um sérstaklega, annars þarf að sækja um á Mínum síðum Hafnarfjarðarbæjar. Sækja þarf um fyrir 20. mánaðar til að fá afslátt fyrir mánuðinn eftir. Afslátturinn er ekki afturvirkur.

Hvaleyrarskóli notar náms- og upplýsingakerfið Mentor þar sem nemendur geta séð stundatöfluna sína, fylgst með ástundun og námsframvindu. Foreldrar og nemendur hafa aðgang að kerfinu með kennitölu og lykilorði. Foreldrar hafa sama aðgang og nemendur auk þess að geta fylgst með skráningum í dagbók nemandans.

Foreldrar geta haft samband með tölvupósti við foreldra barna í bekk barnsins síns og kennara skólans í gegnum Mentor, tilkynnt veikindi og leyfi sem eru 2 dagar eða styttri, bókað viðtöl við kennara og fleira.

Margvíslegar aðferðir eru notaðar til að gefa nemendum mat á námi sínu, til dæmis próf, mat á ritgerðum og verkefnum og þátttökumat. Leiðbeinandi mat gerist yfir allt skólaárið með reglulegri endurgjöf til nemenda. Það felur í sér að benda nemanda á hvar hann er staddur, hvað hann kunni og geti gert betur, og hvetja nemendur í náminu til að auka líkur á því að hann nái.

Yfir veturinn er námsmat birt meðal annars í verkefnabókum og námsmatsmöppum á Mentor, undir námsmati. Staðan í náminu er kynnt í foreldraviðtölum á miðri önn eða í lok annar.

Við lok skólaárs er gert lokamat sem segir til um hversu vel nemandi hefur náð viðmiðum sem lögð voru upp með í náminu.

Nemendur í unglingadeild Hvaleyrarskóla geta fengið læstan geymsluskáp til afnota. Skáparnir eru fyrst og fremst ætlaðir til þess að geyma skólabækur og námsgögn. Nemendur eiga ekki að geyma verðmæti, eins og farsíma og peninga, í skápunum. Skólinn ábyrgist ekki verðmæti sem kunna að tapast í skólanum.

 Skáparnir eru númeraðir og fá nemendur lykil að tilteknum skáp. Nemendur greiða 2.000 krónur fyrir lykil og fá 1000 kr. endurgreitt að vori sé lykli skilað. Skáparnir eiga alltaf að vera lokaðir og læstir þegar eigandi er ekki nærri.

Skólinn áskilur sér rétt til leitar í nemendaskápum ef nauðsyn krefur, til dæmis ef grunur leikur á að öryggi nemenda sé í húfi eða að ólögmætir hlutir leynist í nemendaskáp. Gerist nemandi brotlegur varðandi notkun og umgengni um nemendaskáp gæti hann átt á hættu að missa skápinn sinn.

Oft safnast töluvert af óskilafatnaði á göngum skólans. Ef fötin eru merkt komast þau strax til skila og því mikilvægt að merkja föt, skó og aðrar eigur barnanna.

Óskilamunir eru teknir fram og eru sýnilegir á viðtalsdögum þegar búist er við foreldrum í skólann. Foreldrar geta líka komið við í skólanum hvenær sem er ef þeir sakna einhvers.

Fatnaður sem er ósóttur eftir lok hvers skólaárs er gefinn til Rauða krossins.

Nemendur í grunnskólum í Hafnarfirði fá ókeypis stílabækur, skriffæri, möppur og önnur ritföng sem þeir þurfa á að halda í daglegu skólastarfi. Námsbækur eru einnig ókeypis eins og alltaf hefur verið. Ætlast er til að ritföng verði eftir í skólanum og að nemendur geti unnið heimanám með ritföngum sem eru til á heimilinu.

Foreldrar þurfa aðeins að sjá börnum sínum fyrir skólatösku, sund- og íþróttafatnaði og skriffærum til notkunar heima.

Markmiðið er að draga úr kostnaði foreldra við nám barna sinna, tryggja jafnræði, nýta fjármuni betur og draga úr sóun.

Í boði er fjölbreytt úrval valmöguleika fyrir nemendur í 8.–10. bekk. Sumar valgreinar eru sameiginlegar fyrir 8. – 10. bekk, aðrar fyrir 9. og 10. bekk og nokkrar valgreinar eru einungis fyrir 10. bekk. Valgreinabæklingur er sendur til nemenda á vorin og settur inn á svæði þeirra á Google-classroom og nemendur velja fög áður en skóla lýkur fyrir sumarið.

Valgreinar eru kenndar hálft ár í senn, 1 til 2 kennslustundir í einu nema annað sé tekið fram í áfangalýsingu. Valgreinar eru ekki aukagreinar heldur eru þær jafn mikilvægar og kjarnagreinarnar og kröfur um ástundun og árangur þær sömu.

Val er bindandi fyrir komandi skólaár og því er mikilvægt að vanda valið. Ef ekki er nóg þátttaka í einstaka valgreinum geta þær fallið niður.

Metið val

Nemendur geta fengið metið nám utan skólans sem 2 kennslustundir á viku í staðinn fyrir valgrein. Ef nemandi stundar tvær íþróttagreinar eða nám utan skóla má fá 4 kennslustundir metnar. 

Dæmi:

 • Tónlistarskóli
 • Myndlistarskóli.
 • Nám við framhaldsskóla.
 • Skákskóli.
 • Reiðskóli.
 • Tungumálaskóli.
 • Dansskóli.
 • Skipulagt íþróttastarf.

Til að staðfesta þátttöku í utanskólavali þarf nemandi að skila sérstöku eyðublaði sem skólinn leggur til með undirskrift foreldris. Nemendur og foreldrar bera fulla ábyrgð á þessum skilum til að starfið fáist metið.

Í Hvaleyrarskóla er lögð áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum. Mikilvægt er að nemandinn og foreldrar hans fái strax í upphafi jákvæða mynd af skólanum og finnist þeir velkomnir í skólann.

Foreldrar skrá barn sitt í skólann á Mínum síðum á vef Hafnarfjarðar. Ef nemandi er að koma úr öðru sveitarfélagi, eða erlendis frá, þarf að skrá barnið á skrifstofu skólans á þar til gerðum eyðublöðum.

Þegar nýr nemandi er skráður í skólann er honum og foreldrum hans boðið að koma í heimsókn í skólann. Stjórnendur taka á móti þeim og kynna skólastarfið og sýna þeim húsnæðið. 

Umsjónarkennarar eru beðnir um að hafa samband við heimili nýrra nemenda þegar 1 til 2 vikur eru liðnar af skólatímanum. Þá gefst tækifæri til að ræða líðan nemandans og upplifun hans og foreldra af skólanum.

Móttaka nemanda á miðjum vetri  

Nemandi mætir fyrst utan skólatíma ásamt foreldrum sínum og hittir væntanlegan umsjónarkennara. Þegar nemandi byrjar í skólanum á miðjum vetri sér umsjónarkennari um að:

 • Afla upplýsinga frá foreldrum um nemandann almennt, námsgengi (meðal annars athuganir og greiningar), félagslega stöðu, skólagöngu hingað til, heilsufar, trúarbrögð, tengsl við aðra nemendur í skólanum og svo framvegis. Ef eitthvað er athugavert við heilsu nemandans skal umsjónarkennari benda foreldrum á að hafa samband við skólahjúkrunarfræðing. Umsjónarkennari fylgist með því að þær upplýsingar komist til skila.
 • Gefa foreldrum kost á að koma í skólann ásamt nemandanum til að hitta sig og skoða skólahúsnæði.
 • Afhenda foreldrum og nemanda stundatöflu og ritfangalista og benda þeim á hvar frekari upplýsingar er að finna (til dæmis á heimasíðu skólans).
 • Gera foreldrum grein fyrir skólastefnu og starfsvenjum í skólanum.
 • Veita upplýsingar um almenn atriði eins og viðtalstíma, nestismál, klæðnað í íþróttum, tilkynningar um forföll, beiðnir um leyfi og þess háttar.
 • Fara yfir skólareglur með foreldrum og nemanda.
 • Skipa nemandanum í viðeigandi hóp í sérgreinum og láta annað starfsfólk vita af nýjum nemanda.
 • Segja bekkjarfélögum frá komu nýs nemanda og virkja þá til að leiðbeina honum og auðvelda aðlögun í skólanum.
 • Sjá um í samráði við húsvörð að húsgögn séu til staðar fyrir nemandann.
 • Láta bekkjarfulltrúa fá upplýsingar um að nýir samstarfsforeldrar hafi bæst í hópinn.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sendir út tilkynningar um veður þegar á þarf að halda, í samráði við lögreglu og skólayfirvöld.

Mikilvægt er að foreldrar og forsjáraðilar fylgist vel með fréttum af veðri, veðurspám og öðrum tilmælum frá yfirvöldum sem gætu haft áhrif á skólastarf barna og bregðist við í samræmi við aðstæður hverju sinni.

Í Hvaleyrarskóla fá allir nemendur í 5.—10. bekk spjaldtölvu til afnota.

Nemendur í 5.–7. bekk geyma spjaldtölvurnar að mestu í skólanum. Spjaldtölvurnar eru geymdar í sérstökum skáp þar sem þær eru hlaðnar yfir nótt. Kennari getur þó beðið nemendur um að taka spjaldtölvu með heim ef þörf er á til að vinna ákveðin verkefni. 

Nemendur í 8.–10. bekk fara með spjaldtölvurnar heim í lok skóladags og koma með þær hlaðnar næsta skóladag. Mikilvægt er að tölvan sé alltaf fullhlaðin í byrjun dags þar sem hún er mikið notuð í kennslu og hætta á að tölvan eða hleðslutæki skemmist við að hlaða á göngum og í skólastofum. Ef það gerist þurfa foreldrar að útvega skólanum nýtt tæki.

Við lok hvers skólaárs skila nemendur spjaldtölvunni ásamt hleðslutæki til skólans til geymslu yfir sumarið.

Skjáviðmið

Það er hlutverk foreldra og forsjáraðila að ákveða reglur um notkun spjaldtölvunnar heima fyrir, hvað nemandi má gera og hve lengi. Oft getur verið gott að foreldrar í bekk eða árgangi samræmi slíkar reglur sín á milli, hversu mikil notkun megi vera, hve lengi í einu, hve lengi fram eftir og svo framvegis.

Það er stefna Hvaleyrarskóla að allt starfsumhverfi sé hættulaust, jafnt fyrir nemendur og starfsfólk. Það er mikilvægt að allir nemendur og starfsfólk skólans hafi þekkingu á og æfi rétt viðbrögð við hvers konar vá sem yfir getur dunið á skólatíma.

Áfallateymi

Í skólanum er starfandi áfallateymi. Hlutverk þess er að skipuleggja viðbrögð við áföllum hjá nemendum og starfsfólki. Með áföllum er átt við alvarleg veikindi eða dauðsföll í nemendahópnum eða hjá starfsfólki, maka starfsfólks eða börnum. Ef slík tilvik koma upp er unnið eftir áfallaáætlun skólans. Einnig er áfallateymi kennurum og öðru starfsfólki til ráðgjafar þegar þurfa þykir. Áföll tilkynnast til skólastjóra sem stýrir áfallateymi og ákveður fyrstu viðbrögð.

Stafrænar öryggismyndavélar eru utanhúss í skólanum og við suma innganga. Markmiðið er að hafa rafræna vöktun á skólabyggingunni og skólalóðinni í öryggisskyni og til varnar því að eigur séu skemmdar eða þeim stolið.

Upptökur eru einungis skoðaðar ef upp koma atvik varðandi eignavörslu eða öryggi einstaklinga, eins og þjófnaður, skemmdarverk eða slys. Heimild til skoðunar er aðgangsstýrð en myndefni er vistað að hámarki í 90 daga og eytt að þeim tíma loknum.

Vöktunin er útfærð í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Merkingar með viðvörunum um rafræna vöktun eru uppsettar á vöktuðu svæðunum.