Skólinn

Í Hvaleyrarskóla eru 2 til 3 bekkjardeildir í hverjum árgangi. Í upphafi skólaársins 2023–24 voru um 375 nemendur í skólanum.

Skólahverfi Hvaleyrarskóla markast af Hvaleyrarbraut, Ásbraut og Reykjanesbraut inn að álveri. Börn hafa forgang í þann hverfisskóla þar sem þau eiga lögheimili en hægt er að sækja um skólavist í öðrum skólum. Sjá nánar um innritun í grunnskóla.

Einkunnarorð

Einkunnarorð Hvaleyrarskóla eru: KurteisiÁbyrgðSamvinna. Markviss málörvun er eitt af sérkennum skólans. Í markvissri málörvun læra nemendur framkomu og framsögn, að mynda sér skoðanir, rökstyðja þær og geta tjáð sig fyrir framan hóp af fólki.

Skólabragur

SMT skólafærni er ein af áherslum Hvaleyrarskóla. Í því felst að lögð er áhersla á að styrkja jákvæða hegðun nemenda, efla og bæta samskipti innan skólans. Markmið SMT er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Áhersla er á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun.

Skólamerki

Skólamerkið sýnir þrjár hendur kennara, barna og foreldra sem mynda þétt handtak til merkis um öflugt, traust og jákvætt samstarf heimila og skólans.