Ástundun

Nám og kennsla

Góð mæting í skóla er mikilvægur þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Miklar fjarvistir úr skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og geta valdið skólaforðun og versnandi námsárangri.

Í öllum grunnskólum Hafnarfjarðar eru samræmdar reglur varðandi ástundun. Fylgt er ákveðnu vinnuferli varðandi slaka ástundun sem skiptist í forstig, viðbragðsstig, hættustig og barnaverndarstig. Tilgangurinn er að samhæfa viðbrögð við skólasókn svo sama ferli mæti nemendum með svipaða skólasókn óháð einstaka grunnskólum.

Skólasóknareinkunn

Skólasóknareinkunn er gefin sem lokaeinkunn í lok skólaárs fyrir allt skólaárið út frá fjarvistum, seinkomum og brottrekstrum. Einkunn er gefin á kvarðanum A, B+, B, C+, C og D. Hún hefst með einkunnina A og lækkar síðan allan veturinn eftir því sem fjarvistir aukast.

Hægt er að hækka skólasóknareinkunn upp um fjögur fjarvistarstig á viku með óaðfinnanlegri skólasókn í heila viku. Ekki er hægt að hækka hærra en í B yfir skólaárið og hækkun hefst ekki fyrr en nemandi er kominn í C+ í einkunn eða lægra.

Raunmætingareinkunn

Raunmætingareinkunn í prósentum er gefin í lok skólaárs fyrir allt skólaárið. Nemandi byrjar með 100% skólasókn í upphafi skólaárs og lækkar hún eftir því sem fjarvistir, seinkomur, brottrekstrar, leyfi og veikindi koma til.

Undanþágur hafa ekki áhrif á raunmætingu, til dæmis undanþága frá sundtímum vegna íþróttaþjálfunar hjá íþróttafélagi. Það sama gildir ef nemandi hefur formlega „skerta stundatöflu“. Aðeins skólastjóri veitir undanþágur til einstakra nemenda.

Fjarvist, seint og brottrekstur

  • Ef nemandi kemur í tíma eftir að kennsla hefst telst það vera seint og er 1 fjarvistarstig.
  • Ef nemandi mætir ekki í tíma eða eftir að 20 mínútur eru liðnar telst það vera fjarvist og er 2 fjarvistarstig.
  • Ef nemanda er vikið úr tíma er honum vísað til skólastjórnanda og er 3 fjarvistarstig.
  • Ef skólastjórnandi vísar nemanda heim út skóladaginn eftir brottrekstur úr tíma fær nemandi 2 fjarvistarstig til viðbótar (en ekki fyrir aðra tíma sem hann missir af).
  • Fjarvistir, seinkomur og brottvísanir úr tíma teljast til skólasóknareinkunnar.

Leyfi og veikindi

  • Stök leyfi og veikindi sem eru samtals 6 kennslustundir telst vera einn fjarvistardagur (12 fjarvistarstig).
  • Leyfi og veikindi teljast ekki til skólasóknareinkunnar en teljast sem hluti af raunmætingu.
  • Leyfi í 2 daga eða minna er hægt að tilkynna í Mentor, með tölvupósti eða hringja í skólann. 
  • Tilkynna þarf leyfi í 3 daga eða lengur gegnum form á vef skólans. Skólinn gefur ekki út sérstakt heimanám eða sérverkefni til nemenda í leyfum né gerir tilfærslur á námi. Allt nám er á ábyrgð forsjáraðila meðan á leyfi stendur.
  • Ef eðlileg skýring er til staðar sem kennari hefur upplýsingar um frá forsjáraðilum, til dæmis vegna dvalar á spítala, fer ferli ekki í gang.