Áherslur í námi og kennslu

Nám og kennsla

Námsgreinar eru mikilvægur hluti skólastarfs en ekki markmið í sjálfu sér. Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska.

Í viðfangsefnum og aðferðum námsgreina kynnast nemendur ólíkum sviðum veraldarinnar; heimi hluta og hugmynda, náttúru og menningu. Nemendur fræðast um nærumhverfi sitt og fjarlæg heimshorn, kynnast örheimi efnisagna og víðáttum geimsins. Námsgreinar gefa nemendum færi á að kynna sér og ræða siði og lífshætti, þekkingu og hugmyndir, kenningar og staðreyndir, lögmál og reglur sem gefa lífi þeirra og umhverfi merkingu og tilgang. Námsgreinarnar búa einnig yfir mismunandi aðferðum og verklagi sem nýtast til náms og þroska.

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna þeirra og ætlast er til að foreldrar fylgist með náminu í samvinnu við barnið og kennara.

Málþroski og mál- og lesskilningur barna

Hér eru bæklingar fyrir foreldra um málþroska og mál- og lesskilning barna, frá fæðingu til 12 ára aldurs.

 

Skák

Öllum nemendum í 3. og 4. bekk í Hvaleyrarskóla er kennd skák. Helmingi bekkjarins er kennd skák í einu og tekur bekkjarkennari hinn hópinn í aðra kennslu. Lögð er áhersla á að allir læri mannganginn og æfist í að tefla.

Með þessu er ýtt undir skákáhuga nemenda og rökhugsun þjálfuð. Talsvert er um það að nemendur nýti lausar stundir til að tefla. Nokkrum sinnum á síðustu árum hafa verið haldin fjöltefli í skólanum. Nemendur hafa einnig verið hvattir til að taka þátt í skákmótum og hafa náð góðum árangri þar.

Sviðslistir

Nemendur í 1.–6. bekk fá kennslu í sviðslistum einu sinni í viku. Sviðslistakennslan (áður danskennsla) hefur meðal annars skilað sér í skemmtilegum dansatriðum á samverum nemenda. Aðaláherslur með danskennslunni eru að nemendur:

  • öðlist öryggi til þess að tjá sig í hreyfingu við tónlist
  • taki þátt í hreyfileikjum (gangi í röð, í hring og læri hoppspor)
  • kunni skil á hægri og vinstri, hæl og tá, fram og aftur
  • þekki og skynji einföld hreyfimynstur eins og hring, röð og línu
  • hlusti á tónlist með mismunandi tónfalli, hröð og hæg spor, skilgreini dansstöðu og hald
  • viti hvenær og á hvaða slætti í tónlistinni er hægt að hefja dansinn
  • læri ákveðin grunnspor í samkvæmisdönsum
  • læri að bjóða upp í dans

Viðfangsefni eru í samræmi við aldursstig en meðal þess sem nemendur læra eru ýmsir leik- og tjáningardansar, diskódansar, línudansar, tískudansar og samkvæmisdansar.