Olweusaráætlun

Skólinn

Upprætum einelti

Hvaleyrarskóli hefur slegist í hóp þeirra fjölmörgu skóla sem hafa innleitt Olweusaráætlunina til að draga úr einelti. Markmiðið er að skapa jákvæðan skólabrag og bekkjaranda til þess að fyrirbyggja einelti og andfélagslega hegðun. Áætlunin gerir ráð fyrir að allir starfsmenn skólans þekki einelti og hvernig skuli bregðast við því. Virkt eftirlit er í frímínútum, íþróttahúsum, ferðalögum, matsal, kennslustofum og hvar sem nemendur koma saman.

Nemendur fá fræðslu um einelti, birtingarform þess og afleiðingar fyrir bæði gerendur og þolendur. Allir bekkir skólans vinna bekkjarreglur á haustin og bekkjarfundir eru haldnir reglulega þar sem meðal annars er tekið á samskiptum, eineltismálum og rætt um skólabrag. Viðamikil könnun um einelti er lögð árlega fyrir nemendur í 5.–10. bekk.

Þekking foreldra á verkefninu og tilgangi þess er mjög mikilvæg. Allir foreldrar eru hvattir til að kynna sér foreldrabækling Olweusaráætlunarinnar og starfa með skólanum við að uppræta einelti.

Eineltisteymi

Í skólanum er eineltisteymi sem heldur fundi tvisvar í mánuði og oftar ef þurfa þykir. Eineltisteymið fer yfir allar tilkynningar um einelti, styður við þá sem eru að vinna úr málum og tryggir að unnið sé eftir áætlun skólans. Í ráðinu eru fulltrúi stjórnenda, námsráðgjafi, Olweusarfulltrúi og deildarstjóri.